„Það voru nokkur lið sem ræddu við mig í haust en á þeim tímapunkti vildi ég bara kúpla mig aðeins frá fótboltanum og ég var búinn að stilla mig inn á það að taka mér bara ársfrí frá boltanum," segir Ólafur Davíð Jóhannesson í samtali við fjölmiðla í kjölfar þess að hann var kynntur til leiks sem nýr þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í knattspyrnu.

„Eftir að ég kom heim úr fríi þar sem ég náði að hlaða batteríin hafði Rúnar Páll [Sigmundsson] samband við mig og mér leist á þær hugmyndir sem hann hafði um samstarf okkar um þjálfun liðins.

Ég fann það að löngunin til þess að halda áfram að þjálfa kom aftur og ég ákvað að slá til," segir Ólafur Davíð enn fremur en hann og Rúnar Páll munu stýra liðinu í sameiningu.

„Stjarnan er þannig félag að þess er ávallt krafist að liðið sé í toppbaráttu og það verður engin breyting á því á næsta tímabili. Ég þekki leikmenn liðsins bara sem fótboltamenn og nú fer ég í það að kynnast þeim sem persónum. Ég hlakka mikið til þess og að fara út á völlinn aftur," segir hann um komandi tíma hjá sér og nýjum lærisveinum sinum.

„Við Rúnar Páll höfum rætt heilmikið um það hvernig leikmannahópurinn muni líta út. Mér líst vel á hópinn eins og hann er núna og svo er ungir spennandi leikmenn að koma upp í félaginu sem verður gaman að sjá hvernig þroskast.

Fram undan eru vangaveltur okkar í milli um fótbolta og það hvernig við viljum og munum vinna hlutina. Ég er þakklátur Rúnar Páli fyrir að veita mér þetta tækifæri og er spenntur að vinna með honum," segir þessi þrautreyndi þjálfari.