„Við þurfum tvo sigra til þess að gulltryggja sætið á EM og það er klárlega markmiðið að klára þessa undankeppni með tveimur sigurleikjum. Ef við leikum á eðlilegri getu og tökum þessa leiki föstum tökum þá náum við í fjögur stig," segir Ólafur Andrés Guðmundsson vinstri skytta íslenska liðsins í samtali við Fréttablaðið um komandi leiki.

„Þetta verða alls ekki auðveldir leikir og sigurinn hjá Grikklandi gegn Norður-Makedóníu sýnir að það verður að taka þetta verkefni alvarlega. Það er mjög hættulegt að vanmeta andstæðing eins og Grikkland. Við setjum hins vegar þá kröfu á sjálfa okkur að fara með sigur af hólmi," segir hann enn fremur.

„Undirbúningurin hefur gengið vel og það er góð einbeiting í hópnum. Við þurfum að vinna fyrir því að ná í sigur til Grikklands og sú vinna hófst á góðum æfingum í vikunni. Nú er bara að fara út og sækja þau tvö stig sem i boði eru," segir þessi reynslumikli leikmaður.

„Þetta eru síðustu leikirnir fyrir kærkomið frí og ég finn það á leikmönnum að það er bæði létt yfir þeim á sama tíma og það er mikil fagmennska yfir því sem verið er að gera á undirbúningnum. Þessir leikir eru alltaf mjög skemmtilegir og menn fá auka kraft bæði af því að spila í landsliðsbúningnum og vita að þetta eru síðustu leikir tímabilsins þar sem mikið er í húfi," segir Ólafur um andrúmsloftið í hópnum.