„Keppnistímabilinu mínu lauk mun fyrr en vanalega vegna áhrifa kórónaveirufaraldursins. Á sama tíma geri ég ráð fyrir að byrja undirbúninginn fyrr fyrir næsta tímabil,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir atvinnukylfingur, aðspurð hvernig líf atvinnukylfingsins sé þessa dagana í miðjum heimsfaraldri.

Ólafía, sem hefur verið með þátttökurétt á LPGA- mótaröðinni undanfarin ár, náði að taka þátt í tveimur mótum í Evrópumótaröðinni á þessu ári og náði best 20. sæti í Tékklandi. „Ég komst inn af biðlistanum á þessi mót vegna árangurs míns til þessa á ferlinum en tímabilinu er í raun lokið hjá mér.“

Hún er með þátttökurétt á Symetra-mótaröðinni í ár, næststerkustu mótaröð Bandaríkjanna, en tók aðeins þátt í einu móti. Forsvarsmenn Symetra tilkynntu kylfingum í upphafi árs, þegar ljóst var að mótafyrirkomulagið yrði ekki það sama og óvíst hvenær mót færu fram, að kylfingar myndu halda þátttökurétti sínum óháð úrslitum á þessu tímabili.

„Þau tilkynntu okkur snemma að þetta tímabil myndi í rauninni ekki teljast til árangurs á stigalistanum. Stigalistinn yrði endurræstur í lok tímabils og allir myndu byrja á sama stað. Fyrir vikið tók ég ákvörðun að vera meira á Íslandi í staðinn fyrir að ferðast í óvissuna sem hefur verið í Bandaríkjunum á þessu ári,“ segir Ólafía, aðspurð út í viðbrögð Symetra við áhrifum COVID-19.

„Forsvarsmenn Symtetra hafa tekið mjög vel á þessu. Það eru sömu skipuleggjendur á Symetra og LPGA og þau hafa verið samstíga í þessu. Nú eru þau að fara í meira samstarf við Evrópumótaröðina sem eru mjög spennandi tíðindi fyrir framtíðina.“ Fyrir vikið eru engin úrtökumót fyrir LPGA á dagskrá í ár. „Það er alveg leiðinlegt að þurfa að bíða í tvö ár eftir næsta tækifæri að komast aftur inn á LPGA en svona er staðan þessa dagana.“

Sjálf hefur Ólafía tekist á við nýtt hlutverk sem golfkennari undanfarnar vikur. „Ég var með eina konu í kennslu sem vildi endilega komast í einhvern hóp. Ég auglýsti því að ég væri með laus pláss fyrir konur og það komu þvílík viðbrögð. Meiri en ég átti von á,“ segir Ólafía glaðbeitt um nýja hlutverkið.

„Það hafa margir spurst fyrir hvort að ég taki að mér kennslu í gegnum árin og ég hef ekki verið að bjóða upp á það fyrr en núna. Ég hef fundið það að ég vil vera hvetjandi manneskja fyrir ungu kynslóðina og reyna að setja gott fordæmi eins og fyrirmyndirnar sem ég var með þegar ég var sjálf að stíga mín fyrstu skref í golfi.“

Vegna kórónaveirunnar hefur þurft að loka æfingasvæðum kylfinga á Íslandi í tvígang til þessa á árinu. Ólafía þurfti því að fara aftur í ræturnar þegar kom að golf­æfingum.„Þetta hefur verið sérstakt ár. Í fyrstu bylgjunni þegar allt var lokað var ég að slá í net í bílskúr. Það minnti bara á þegar ég var lítil að æfa við þessar aðstæður. Undanfarin ár hef ég verið svo góðu vön að geta flogið til Spánar eða Bandaríkjanna að æfa við bestu aðstæður.“