Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir verður meðal þáttakenda á Shoprite LPGA Classic mótinu þessa vikuna sem er þriðja mót hennar í röð á þessari sterkustu mótaröð heims.

Ólafía Þórunn er með takmarkaðan keppnisrétt á LPGA þetta árið eftir að hafa keppt á þessari sterkustu mótaröð heims undanfarin tvö ár þar áður.

Shoprite Classic fer fram á Stockton Seaview golfvellinum í úthverfi New Jersey og er þetta í annað skiptið sem Ólafía tekur þátt í þessu móti eftir að hafa misst af niðurskurðinum í fyrsta skiptið.

Þetta er þriðja mót Ólafíu Þórunnar á LPGA-mótaröðinni þetta tímabilið og þriðja helgin í röð sem hún tekur þátt í móti.

Ólafía náði að vinna sér þáttökurétt á Opna bandaríska meistaramótinu í úrtökumóti ásamt því að taka þátt í Pure Silk Championship viku fyrr en hefur misst af niðurskurði í báðum mótunum til þessa.