Bikarsigur Víkinga á laugardag var litaður af ljótri hegðun áhorfenda sem kveiktu á blysum, hlupu inn á völlinn og voru með svívirðingar gagnvart sjálfboðaliðum sem sinntu gæslu. Hegðunin verður tekin fyrir á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ og má félagið eiga von á þungri sekt.

Fundurinn fer fram síðar í dag og þá gæti komið í ljós hvort eða hvernig Víkingum verður refsað.

Eftirlitsmaður KSÍ á bikarúrslitaleiknum um helgina skilaði af sér skýrslu til sambandsins í gær og mun aga- og úrskurðarnefnd KSÍ úrskurða í dag um skrílslæti Víkinga. Búast má við að félagið fái sekt en kveikt var á blysum í stúkunni og einstaklingur hljóp inn á völlinn. Fleiri myndir frá laugardeginum má sjá hér fyrir neðan.

Fréttablaðið/Anton Brink
Fréttablaðið/Anton Brink

Hálfvitar verði alltaf hálfvitar
Ómar Smárason, samskiptastjóri KSÍ ræðir málið við Vísir.is. „Ég held að hálfvitar verði alltaf hálfvitar. Það er fátt sem stoppar hálfvita í að hegða sér eins og hálfviti ef hann ætlar að gera það á annað borð. Þá breytir engu hversu margir eru í gæslunni. Það er kjarninn í þessu,“ segir Ómar við Vísi í dag

Öll gæsla á leiknum var í höndum KSÍ og komu félögin þar hvergi nálægt. Magnús Kristinsson, sem var í gæslunni á leiknum sem sjálfboðaliði fyrir björgunarsveitirnar, skrifaði færslu á Facebook sem hefur farið víða og var meðal annars deilt inn í hverfasíðu 108, heimahverfi Víkinga.

Þar segir Magnús að hann muni ekki taka þátt í gæslu á fleiri bikarleikjum meðan öryggi gæslufólks verði ekki betur tryggt af KSÍ. Hann segir í samtali við Fréttablaðið að þó langflestir hafi verið að skemmta sér vel og fallega hafi skemmdu eplin verið of mörg..