Englendingurinn Gregor Brodie sem tók síðasta vetur við starfi afreksstjóra Golfsambands Íslands af Jussi Pitkanen tekur því fagnandi að tíu kylfingar hafi skráð sig til leiks í úrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina, næststerkustu mótaröð Evrópu. Rúnar Arnórsson, Andri Þór Björnsson og Bjarki Pétursson hafa þegar tryggt sér þátttökurétt á öðru stigi. Haraldur Franklín Magnús stendur vel að vígi eftir tvo hringi á fyrsta stiginu, Dagbjartur Sigbrandsson á enn möguleika á að komast áfram fyrir lokahringinn í dag og Ólafur Björn Loftsson tekur þátt í fyrsta stiginu í byrjun október. Aron Bergsson, Aron Snær Júlíusson, Axel Bóasson og Ragnar Már Garðarsson hafa allir lokið leik í úrtökumótinu.

„Auðvitað er jákvætt að sjá íslenska kylfinga í fremstu röð, Ísland hefur aldrei átt jafn marga kylfinga á öðru stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina og það gætu enn bæst við nöfn. Það eru spennandi tímar fram undan næstu vikurnar,“ segir Brodie, aðspurður út í kylfingana tíu.

„Það eru margir ungir og spennandi kylfingar, bæði strákar og stelpur, á Íslandi sem gætu tekið næsta skref. Það er okkar að vinna með þeim og fá þau til að hugsa lengra, stefna hærra. Ísland mun eiga leikmenn á sterkum mótaröðum en við viljum eignast kylfing sem vinnur mót á stærsta sviðinu,“ segir Greg enn fremur.

Hann fer fögrum orðum um Birgi Leif, einn besta kylfing Íslandssögunnar, en segir að íslenskir kylfingar geti náð lengra.

„Birgir Leifur er goðsögn í íslensku golfi og hefur náð ótrúlegum árangri en markmiðið á að vera að komast lengra.“

Ólafur Björn er aðstoðarþjálfari Brodies og verður því sérstakt fyrir Englendinginn að fylgjast með honum í úrtökumótinu.

„Ég sendi honum skilaboð og sagði að ég héldi 99 prósent með honum en hitt 1 prósentið vildi ekki missa hann,“ segir Brodie hlæjandi og heldur áfram:

„Þetta er frábært tækifæri fyrir Ólaf sem hefur reynst mér ómetanlegur þennan stutta tíma sem við höfum unnið saman. Það yrði frábært fyrir hann að ná inn á mótaröðina en vont fyrir mig.“

Sex mánuðir eru liðnir síðan Englendingurinn tók við starfinu og hefur hann fylgst vandlega með efnilegustu kylfingum landsins í sumar.

„Fyrstu mánuðirnir hafa gengið vel, við byrjuðum á að reyna að bæta hugarfarið hjá íslenskum kylfingum og töluðum um hvað þarf til að komast lengra. Hvernig kylfingar þurfi að haga sér varðandi æfingar, næringu og slíkt. Við hittumst snemma og reyndum að vinna í því að taka framförum,“ segir Brodie og heldur áfram:

„Það er mikil undirbúningsvinna að baki við að fylgjast með efnilegustu kylfingum landsins og núna hefst vinnan við að hjálpa þeim að taka framförum. Við höfum verið að fá frábæra þjálfara að utan til að hjálpa okkur. Svo eigum við von á einum af bestu áhugakylfingum heims sem ætlar að ræða við kylfinga um hvaða möguleikar eru fyrir hendi og þjálfara sem fékk á dögunum verðlaun frá PGA sem þjálfari ársins.“

Á stuttum tíma hefur Gregor hrifist af Íslandi.

„Við fyrstu sýn eru margir frábærir kylfingar á Íslandi og áhuginn á golfi er mikill. Það eru margir hæfileikaríkir kylfingar en það skortir oft trúna á hversu langt er hægt að komast. Það þarf að taka skref áfram, ekki bara kylfingarnir heldur líka frábæru þjálfararnir sem eru á Íslandi.“

Fyrsta verkefni hans var að fara á EM áhugakylfinga í sumar þar sem karlalandsliðið lenti í 11. sæti, kvennalandsliðið í 19. sæti, piltalandsliðið í 16. sæti og stúlknalandsliðið í 18. sæti.

„Við lögðum áherslu á betri undirbúning fyrir mótið, markmiðið var sett hærra en oft mátti litlu muna. Stundum skorti trú, ég spurði hver markmiðin væru og fékk eitt svar um að vera ekki neðstur. Það er ekki jákvætt hugarfar og þarf að bæta úr.“