Ögmundur Kristinsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, mun færa sig um set milli liða í Grikklandi eftir að yfirstandandi leiktíð lýkur. Ögmundur hefur leikið með gríska liðinu Larissa frá því árið 2018 en liðið hefur bjargað sér frá falli á keppnistímabilinu sem er að ljúka.

Ögmundur hefur skrifað undir samning við Olympiacos sem hefur nú þegar trygggt sér gríska meistaratitilinn í 45. skipti í sögu félagsins en liðið er það sigursælasta í sögu grísku efstu deildarinnar.

Auk þess að hafa leikið með Larissa hefur Ögmundur leikið með Fram danska liðinu Randers, sænska liðinu Hammarby og hollenska liðinu Excelsior á ferli sínum. Þá hefur hann leikið 15 leiki fyrir íslenska A-landsliðið.