Tekin var saman tölfræði í vikunni þar sem rýnt var í hvaða leikmanni væri brotið oftast á í fimm stærstu deildum Evrópu en þar situr brasilíska stórstjarnan Neymar í efsta sæti.

Eru leikmenn úr frönsku deildinni í efstu tveimur sætunum en 96 sinnum hefur verið brotið á Neymar í frönsku deildinni en það reiknast út sem að brotið sé á honum að meðaltali á tæplega átján mínútna fresti.

Hann ætti þó að vera farinn að venjast því en hann var í öðru sæti yfir þá leikmenn sem brotið var oftast á í þessum deildum í fyrra.

Næstur á lista er Nabil Fekir, leikmaður Lyon en Malcom frá Bordeaux sem var orðaður við Tottenham og Arsenal í janúarglugganum er einnig á lista.

Tveir leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni ná inn á listann en það eru þeir Richarlison frá Watford og Dele Alli frá Tottenham.