Haukar töpuðu fyrsta leik tímabilsins í EuroCup 41-84 gegn franska liðinu Villeneuve d’Ascq á heimavelli sínum í kvöld þar sem Haukakonur komust lítt áleiðis gegn öflugri vörn franska liðsins.

Hafnfirðingum tókst aðeins að laga stöðuna undir lok leiksins þegar úrslitin voru í höfn.

Franska liðið byrjaði leikinn af krafti og leiddi með sautján stigum eftir fyrsta leikhluta. Haukakonur hittu úr fjórum af átján skotum í leikhlutanum og einu af tíu þriggja stiga skotum sínum.

Haukum tókst að halda í við franska liðið í öðrum leikhluta en í þriðja leikhluta setti franska liðið aftur í gír og gerði út um leikinn.

Það var því formsatriði fyrir gestina að leika fjórða leikhluta og ljúka leiknum með sigri.

Helena Sverrisdóttir sem hefur glímt við smávægileg meiðsli var stigahæst í liði Hauka með þrettán stig ásamt því að taka þrettán fráköst en næst kom Eva Margrét Kristjánsdóttir með átta stig.

fréttablaðið/ernir
fréttablaðið/ernir
fréttablaðið/ernir
fréttablaðið/ernir