„Ég er virkilega ánægður með stigin þrjú, við fengum þau sex stig sem við ætluðum okkur út úr þessu landsleikjahléi gegn tveimur erfiðum andstæðingum. Spilamennskan var frábær í fyrri hálfleik, við vildum leyfa þeim að vera með boltann og treysta á skyndisóknir og föst leikatriði,“ sagði Erik Hamrén, þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu himinlifandi eftir 2-1 sigur Íslands á Tyrklandi í dag.

„Við fengum fullt af færum og gátum auðveldlega verið 3-0 yfir í hálfleik. Þegar þeir minnkuðu muninn var eins og að vera sleginn í andlitið en okkur tókst að halda sama skipulagi í seinni hálfleik og vorum skynsamir. Ég er rosalega stoltur af spilamennsku minna manna. Þeir unnu þessa tvo leiki sem voru leikir sem við þurftum að vinna og nú er allt opið á ný í riðlakeppninni.“

Hamrén sagði að leikáætlunin hafi gengið eins og í sögu.

„Leikáætlunin gekk fullkomnlega framan af í leiknum, við vildum vera aftar á vellinum en í síðasta leik og setja pressu á þá á réttum stöðum. Við vörðumst vel allan leikinn og þegar þú verst vel opnast möguleikar á skyndisóknum. Svo fengum við tvö mörk úr föstum leikatriðum, Raggi átti að vísu að skora þrjú miðað við færið sem hann fékk en þetta var virkilega ánægjulegt,“ sagði Hamrén glottandi.

Landsliðsþjálfarinn fór fögrum orðum um Jón Daða Böðvarsson sem var frábær í leiknum.

„Það var áhætta að velja hann í hópinn fyrir þessa leiki, hann var að æfa einsamall við að byggja upp þol og styrk. Við sögðum honum viku áður en hópurinn var tilkynntur að við þyrftum að skoða hann og hann stóðst allt það sem við ætluðumst til hans. Hann spilaði ekki gegn Albaníu en kom inn í dag vegna gæða sinna og hann sannaði sig inn á vellinum. Ég vonast bara til þess að hann haldist núna heill og eigi gott ár eftir að hafa átt erfitt síðasta árið. Hann skorar ekki alltaf en hann færir þessu liði alveg ótrúlega mikið.“

Hamrén ætlar að njóta næstu daga á Íslandi.

„Ég er búinn að vera hérna í tæpar þrjár vikur og veðrið hefur verið frábært. Ég hef lítið náð að skipuleggja það en ég mun eyða næstu dögum á ferðalagi um Ísland. Ef við hefðum tapað þessum leikjum þá hefði ég líklegast tekið næstu vél aftur heim en nú munum við vera áfram og njóta þess að skoða þetta fallega land.“