Liverpool og Manchester City topplið ensku úrvaldseildarinnar í knattspyrnu karla báru bæði sigurorð í leikjum sínum í 34. umferð deildarinnar í dag.

Manchester City hafði betur 3-1 þegar liðið sótti Crystal Palace heim á Selhurst Park.

Raheem Sterling skoraði tvö marka Manchester City í leiknum og Gabriel Jesus bætti þriðja markinu við. Luka Milivojevic skoraði hins vegar mark Crystal Palace.

Liverpool lagði svo Chelsea að velli með tveimur mörkum gegn engu í leik liðanna á Anfield.

Sadio Mané skoraði fyrra mark Liverpool í upphafi seinni hálfleiks eftir laglegt samspil Mohamed Salah og Roberto Firmino og svo hárnákvæma fyrirgjöf Jordan Henderson.

Mohamed Salah gulltryggði síðan Liverpool sigurinn með marki sínu einungis tveimur mínútum síðar. Mark Salah var stórglæsilegt en hann skaut fallegu skoti rétt utan vítateigs sem hafnaði í samskeytunum.

Liverpool er áfram á toppi deildarinnar nú með 85 stig en Manchester City er sæti neðar með 83 stig. Chelsea er svo í fjórða sæti deildarinnar með 67 stig en liðið hefur stigi minna en Tottenham Hotspur sem er sæti ofar.

Umferðinni lýkur með leik Watford og Arsneal sem fram fer annað kvöld.