Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, mun krefjast þess að leikmenn og lið fari eftir sóttvarnarreglum og er með því ljóst að óbólusettir leikmenn geta ekki leikið í Frakklandi í útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu, Evrópudeildinni né Sambandsdeild Evrópu.

Það er því hætt við því að leikmenn Chelsea og Real Madrid sem hafi ekki þegið bólusetningu við Covid-19 missi af öðrum leiknum í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Á dögunum tilkynnti franska ríkisstjórnin nýjar aðgerðir í baráttunni við Covid-19 faraldurinn um að einstaklingar þurfi að sýna fram á bólusetningarvottorð eða staðfestingu á að þau séu nýbúin að ná sér af smiti til að mæta á íþróttaviðburði.

Íþróttamálaráðherra Frakklands, Roxana Maracineanu, tilkynnti um leið að engar undanþágur yrðu veittar frá kröfu stjórnvalda.