Aldís Kara Bergsdóttir var fyrst Íslendinga til þess að keppa á úrtökumóti fyrir Ólympíuleika í listhlaupi á skautum er hún tók þátt á sínu fyrsta alþjóðlega móti í fullorðinsflokki í Nebelhorn á þýskri grundu í síðustu viku.

„Það eru meiri kröfur gerðar í fullorðinsflokki en í unglingaflokki og dómararnir eru strangari þar. Það eru fleiri mínusstig fyrir hver mistök og erfiðara að fá plúsa.

Af þeim sökum þarf ég að fara í það að fínpússa stökkin mín og bæta tæknileg atriði fyrir næstu mót. Þá þarf ég að bæta erfiðleikastigin ætli ég mér að ná þeim markmiðum sem ég hef sett mér.

Það var hins vegar ekkert stress hjá mér þegar út á svellið var komið. Mér hefur gengið betur á ferlinum að undirbúa mig andlega fyrir alþjóðleg mót sem haldin eru erlendis þar sem þar er ekki pressa á mér að næla í verðlaun.

Ég nýt mín betur þegar ég er bara að skauta fyrir sjálfa mig og að freista þess að ná þeim markmiðum sem ég hef sjálf sett mér og er ekki að hugsa um að verða í efstu sætum mótanna,“ segir Aldís Kara um frumraun sína á alþjóðlegu móti í flokki fullorðinna en á mótinu voru margir af fremstu skauturum heims.

Aldís Kara negldi hvert stökkið á fætur öðru í keppni með frjálsu prógrammi á mótinu í Þýskalandi og fékk há erfiðleikastig á snúninga- og sporasamsetningu. Þar tryggði hún sér þátttökurétt á Evrópumeistaramóti fyrst íslenskra skautara.

Næsta mál að komast inn á HM

„Nú er næst á dagskrá að tryggja mér farseðil á heimsmeistaramótið og til þess að það geti orðið að veruleika þarf ég að breyta rútínunni í dansinum fyrir næsta mót. Það er að framkvæma erfiðari stökk og fækka mistökum. Það eru engar drastískar breytingar heldur bara að halda áfram að bæta mig smátt og smátt. Sem dæmi má nefna að í stað tvöfalds stökks þarf ég að gera þrefalt í rútínunni og annað í þeim dúr.

Það er klárlega raunhæft að ná að bæta mig nógu mikið á milli móta til þess að komast á heimsmeistaramótið. Ég lærði mikið af mótinu í Þýskalandi, bæði hvernig dansinn minn er metinn og svo af því að keppa við marga af fremstu skauturum heims.

Þá þarf ég að vinna áfram í andlega þættinum og vera ákveðnari þegar ég framkvæmi stökkin mín til þess að koma í veg fyrir að lendingarnar mínar séu ekki eins og best verður á kosið.

Allir hnökrar á lendingum koma til frádráttar og ég þarf að bæta mig jafnt og þétt í að fækka þeim hnökrum,“ segir þessi metnaðarfulla skautakona.

Næsta mót hjá Aldísi Köru er Finlandia Trophy sem fram fer í Espoo í Finnlandi 7. til 11. október næstkomandi. Þar er það efst á stefnuskránni að koma sér á þátttökulistann á næsta heimsmeistaramóti.

„Hvað langtímaplön varðar þá ætla ég að klára menntaskólann hér fyrir norðan og halda áfram að æfa á Akureyri. Svo þegar ég er búin að klára stúdentinn langar mig að fara út til Bandaríkjanna á háskólastyrk.

Einbeitingin þessa stundina er hins vegar bara á æfingarnar með þjálfaranum mínum, menntaskólann og mótið sem fram undan er í Finnlandi. Það er nóg af spennandi verkefnum á næstunni og ég er mjög spennt fyrir þeim,“ segir hún um framhaldið.