Á mánudag fór Carragher mikinn þegar hann gagnrýndi Solskjær og starf hans hjá Manchester United. Talaði hann um að starf Solskjær væri í hættu. Sagði hann að United myndi aldrei vinna ensku deildina eða Meistaradeildina með Solskjær sem stjóra

Sá norski svaraði fyrir sig á fréttamannafundi á þriðjudag. „Ég er með mín gildi, ég er með mína leið til að þjálfa og ég trúi á hana. Svo lengi sem félagið trúir á mig þá held ég að skoðun Carraghar hafi engin áhrif," sagði Solskjær.

Carragher var svo sérfræðingur í sjónvarpi í gær þegar Manchester United vann dramatískan 3-2 sigur á Atalanta í Meistaradeildinni. Að leik loknum fór Solskjær yfir leikinn og sagði.

„Maður heyrði smá tuð úr stúkunni, ég hef verið hérna meira og minna í 18 ár. Þetta hefur ekki gerst oft, stuðningsmennirnir vita betur en þetta," sagði Solskjær að leik loknum.

Carragher var mjög óhress með þessi ummæli Solskjær. „Þetta var mjög skrýtið viðtal, þessi ummæli um stuðningsmennina voru bjánaleg," sagði Carragher.

„Stuðningsmennirnir eru jafn mikilvægir og Ronaldo, eða Solskjær og þær breytingar sem hann gerði í leiknum. Þetta voru heimskuleg ummæli a tala um stuðningsmennina. Þeir hjálpuðu liðinu að vinna leikinn.“

Manchester United og Liverpool eigast við í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag.