Hvort sem Chelsea eða Barcelona hefur betur er ljóst að það verður nýtt nafn skrifað á spjöld sögunnar í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í kvennaflokki um helgina.

Chelsea er aðeins annað enska félagið í 20 ára sögu keppninnar sem leikur til úrslita en Barcelona stefnir að því að verða fyrsta spænska liðið til að bera sigur úr býtum í henni. Börsungar hafa áður leikið til úrslita en þá stóð hið ógnarsterka lið Lyon í vegi þeirra fyrir fjórum árum. Um leið verður þetta í fyrsta skiptið í sex ár sem eitthvert annað lið en Lyon verður krýnt besta lið Evrópu og fyrsta sinn síðan 2007 sem lið utan Þýskalands og Frakklands hampar titlinum.

Undanfarin tvö ár hefur Chelsea ekki tekist að komast yfir síðustu hindrunina í átt að úrslitaleiknum en með komu Pernille Harder hefur öflugur sóknarleikur liðsins orðið enn betri. Hin danska Harder og hin ástralska Sam Kerr hafa náð vel saman í sóknarlínunni og átt stóran þátt í vegferð Chelsea að úrslitaleiknum þar sem félagið hefur meðal annars slegið út þýsku stórliðin Wolfsburg og Bay­ern Mün­­chen. Brottför hinnar norsk-íslensku Maríu Þórisdóttur til Manchester United virðist ekki hafa sett strik í reikninginn þar sem Chelsea varði enska meistaratitilinn eftir baráttu við Manchester City og getur fylgt því eftir með sigri í Meistaradeild Evrópu um helgina.

Líkt og Chelsea koma leikmenn Barcelona inn í leikinn í Gautaborg í sigurvímu eftir að hafa tryggt sér spænska meistaratitilinn um síðustu helgi þrátt fyrir að eiga átta leiki eftir. Börsungar hafa verið óstöðvandi í deildarkeppninni, unnið alla 26 leikina til þessa og skorað 128 mörk en aðeins fengið á sig fimm. Þetta var annar meistaratitill Börsunga í röð og er Barcelona nú sigursælasta lið Spánar frá upphafi.