Opna breska meistaramótinu í golfi karla, The Open, lauk á Royal Portrush-vell­in­um á Norður-Írlandi í dag. Það var írski kylfingurinn Shane Lowry sem bar sigur úr býtum á mótinu. Mótið var haldið utan Englands og Skotlands í fyrsta skipti í 68 ár.

Þetta er í fyrsta skipti sem Lowry fer með sigur af hólmi á risamóti en besti árangur hans á þeim vettvangi fyrir þetta mót var annað sætið á opna bandaríska árið 2016.

Lowry hafði best náð níunda sæti á opna breska þegar hann hóf keppni að þessu sinni en þeim árangri náði hann árið 2014.

Hann náði fljótlega forystu á mótinu og jók forskotið jafnt og þétt á hringunum fjórum. Þegar yfir lauk kom hann í hús á 15 höggum undir pari vallarins.

Írski kylfingurinn vann mótði með sex högga mun en Englendingurinn Tommy Fleetwood varð í öðru sæti og Bandaríkjamaðurinn Tony í því þriðja á sjö höggum undir pari.

Ítalinn Francesco Molin­ari, sig­ur­veg­ar­inn frá því í fyrra, lék lokahringinn á fimm högg­um und­ir pari og náði að kom­ast upp í 11. sæti.