Guðjón Valur Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta mun á næstunni vera kynntur til leiks sem þjálfari þýska B-deildarliðsins Gummersbach. Það er visir.is sem greinir frá þessu.

Guðjón Valur tilkynnti það í vikunni sem er að líða að 25 ára ferli hans inni á handboltavellinum væri lokið en hann lék síðast með franska liðinu PSG þar sem hann kvaddi með meistaratitli.

Guðjón lék með Gummersbach á árunum 2005 til 2008 en hann varð markakóngur í þýsku efstu deildinni á sínu fyrsta keppnistímabili með liðinu.

Hann verður annar Íslendingurinn til þess að þjálfa liðið en Alfreð Gíslason þjálfaði Guðjón og liðsfélaga hans þar frá 2006 allt til ársins 2008. Gummersbach hafnaði í fjórða sæti þýsku B-deildarinnar á nýliðinni leiktíð.