Gjöf sem portúgalska knattspyrnugoðsögnin Cristiano Ronaldo fékk fram samstarfsaðila sínum Jacob and co. í tilefni félagsskipta hans til sádi-arabíska knattspyrnuliðsins Al-Nassr hefur vakið töluverða athygli.
Gjöfin var í formi úrs sem metið er á um 630 þúsund pund, það jafngildir rúmum 112 milljónum íslenskra króna.
Úrið er fallega grænt og svipar til fánalits sem er ríkjandi í fána Sádi-Arabíu og hefur Ronaldo nú þegar látið mynda sig með það.
Ronaldo gekk til liðs við Al-Nassr á frjálsri sölu í upphafi árs en hann hafði verið án félags síðan í fyrri hluta desember á síðasta ári eftir að samningi hans við enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United var rift.
Portúgalinn þénar nóg í Sádi-Arabíu til að eiga fyrir salt í grautinn en talið er að Ronaldo sé að þéna um 173 milljónir punda í árslaun hjá Al-Nassr, því sem nemur tæpum 31 milljarði íslenskra króna.

