Þó svo að norski knattspyrnumaðurinn Erling Braut Haaland hafi nýverið gengið til liðs við enska úrvalsdeildarfélagið Manchester City er enn barist um kappann sem er einn mest spennandi knattspyrnumaður heims um þessar mundir. The Athletic greinir frá því í dag að Haaland hafi val um að gera samning við marga af stærstu íþróttavöruframleiðendum heims.

Haaland hefur nefnilegast ekki gert samning við íþróttavöruframleiðanda en samningur hans við Nike rann út fyrr á árinu. ,,Undanfarnar vikur hefur hann sést í skóm frá mismunandi framleiðendum og gefur það til kynna að hann sé laus á markaðnum," segir í umfjöllun The Athletic.

Þó svo að samningur Nike og Haaland hafi runnið sitt skeið herma heimildir The Athletic að framleiðandinn sé staðráðinn í því að semja á ný við leikmanninn. Hins vegar þurfi framleiðandinn að standast snúning samkeppnisaðila sinna Adidas og Puma.

Eftir að samningur íþróttamanns við íþróttavöruframleiðendur rennur út opnast gluggi sem helst opinn mismunandi lengi, það fer eftir leikmanni sem og framleiðandanum hversu lengi. Samkeppnisaðilar framleiðandans sem átti samning við leikmanninn, í þessu tilfelli Adidas og Puma geta því gert leikmanninum tilboð um samning en í öllum tilfellum er Nike þá gerður kostur á að jafna það tilboð.

Svo lengi sem það er ekkert formlegt tilboð á borðinu er leikmanninum frjálst að klæðast hvaða merki sem er. En ljóst er að sá framleiðandi sem Haaland velur mun njóta góðs af því samstarfi því leikmaðurinn er orðinn súperstjarna og það aðeins 22 ára gamall.