Jorge Mendes, umboðsmaður Cristiano Ronaldo, leikmanns Manchester United vinnur nú hörðum höndum að því að koma skjólstæðingi sínum úr herbúðum Manchester United. Fabrizio Romano, félagsskiptasérfræðingur segir frá því í færlu á Twitter að leikmaðurinn gæti farið frá félaginu á síðustu stundu. Þá segist Breska ríkisútvarpið hafa heimildir fyrir því að Ronaldo gæti yfirgefið herbúðir félagsins en Manchester United hefur hingað til sagt að leikmaðurinn sé ekki til sölu.

Ronaldo kom akkúrat til Manchester United á síðustu stundu félagsskiptagluggans í upphafi síðasta tímabils. Romano segir að það hafi alltaf verið hugur hans eftir síðasta tímabil að reyna komast frá félaginu.

,,Jorge Mendes vinnur að því að finna lausn á stöðu Cristiano Ronaldo sem gæti, á síðustu stundu, skipt um félag eins og fyrir ári síðan. Forgangsmál Ronaldo hefur alltaf verið að yfirgefa Manchester United í sumar. Manchester United segir hins vegar aftur að leikmaðurinn sé ekki til sölu. Jorge Mendes heldur hins vegar áfram að kanna mögulega áfangastaði," skrifaði Fabrizio Romano í færslu á Twitter.

Ronaldo á ár eftir á samningi sínum hjá Manchester United sem gekk afleitlega á síðasta tímabili og hefur farið hræðilega af stað á yfirstandandandi tímabili. Ronaldo vill fara frá félaginu og komast til félags sem spilar í Meistaradeild Evrópu.

Áhyggjur innan herbúða Manchester United.

BBC segir frá því í dag að Manchester United gæti leyft Cristiano Ronaldo að fara frá félaginu í yfirstandandi félagsskiptaglugga. Út á við hefur nálgun Manchester United verið sú að leikmaðurinn sé ekki til sölu en nú segist BBC hafa heimildir fyrir því að hátt settir menn innan félagsins séu farnir að hafa áhyggjur af því hversu fljótt niður á við lisðandinn hafi farið eftir að hafa verið á mjög góðum nótum í æfingarferð Manchester United í Tælandi og Ástralíu.

Ronaldo var ekki með í þeirri ferð og er það mat manna að hann gæti verið að hafa ansi neikvæð áhrif á liðið.

Heimildarmenn BBC hafa sagst óttast að lítið muni breytast hjá félaginu fyrr en Ronaldo sé farinn. Hugsunin sé einni sú að þó svo Ronaldo fari og félagið fái engan inn í staðinn, þá muni frammistöður liðsins batna.