Milliríkjadeilur Úkraínu og Rússlands hafa blossað upp að nýju undanfarnar vikur en líkt og síðustu ár kom UEFA í veg fyrir að þjóðirnar gætu dregist saman í riðil á Evrópumótinu.

Allt frá því að Krímskagi var innlimaður í Rússland árið 2014 hefur samband þjóðanna verið stirt. Stríðið einkennist af skærum og smærri hernaðarátökum og hafa rúmlega tíu þúsund fallið í átökunum.

Í tilefni af þátttöku Úkraínu á Evrópumóti karla í knattspyrnu sem hefst í vikunni var gefin út nýr búningur þar sem er að finna hið umdeilda kort af Úkraínu og stríðssöngva sem eru einkennandi fyrir þjóðernissinna landsins.

Forseti knattspyrnusambands Úkraínu, Andriy Pavelko, hafði orð á því að stríðssöngvarnir væru til staðar til hvatningar fyrir leikmenn liðsins.

Söngvarnir eru kenndir við mótmælendahópa sem steyptu Viktor Yanukovych af stóli í Krímeu.

Yanukovych naut stuðnings rússneskra yfirvalda en eftir að honum var steypt af stóli réðust Rússar inn og hertóku Krímskagann.

Talsmaður utanríkisþjónustu Rússlands, Maria Zakharova, vakti athygli á því að á treyjunni væri Úkraína að gera tilkall til rússneska yfirráðasvæðisins Krímeu.

Þá bætti hún við að á búningunum væri að finna stríðssöngva sem mætti rekja til nasista.

Þingmaðurinn Dmitry Svishchyov tók í sama streng í samtali við rússneska fjölmiðilinn RT þar sem hann kallaði eftir aðgerðum af hálfu UEFA.

„Þetta er afar óviðeigandi. Við skulum þá tefla fram leikmönnum í treyjum þar sem Rússland ræður yfir Póllandi, Úkraínu og Finnlandi.“