Ansu Fati er nafn sem er á vörum þeirra sem fylgjast með spænsku knattspyrnunni eftir frammistöðu hans í 5-2 sigri Barcleona gegn Valencia í fjórðu umferð spænsku efstu deildarinnar. Fati sem er einungis 16 ára gamall varð þá yngsti leikmaðurinn í sögu deildarinnar til þess að bæði skora og leggja upp mark í einum og sama leiknum.

Hann skoraði fyrsta mark Barcelona strax á annarri mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá hollenska miðvallarleikmanninum Frenkie de Jong. Fati launaði svo Hollendingnum með því að leggja upp mark de Jong sjö mínútum síðar.

Það sem eftir lifði leikins gladdi Fati svo stuðningsmenn Barcelona með glæsilegum tilþrifum hans á vinstri vængnum og hann var oft í leiknum hársbreidd frá því að bæta við bæði mörkum og stoðsendingum.

Fati er fæddur í október árið 2002 í Gíneu-Bissá en hann sleit barnsskónum þar í landi en sex ára gamall flutti hann til Herrera sem er smábæi á Suður-Spáni. Þegar hann var átta ára gamall fylgdi Fati eldri bróður sínum í akademíu Sevilla og fljótlega voru tilþrif hans farinn að heilla forráðamenn Barcelona og Real Madrid.

Barcelona hafði betur í baráttunni við Real Madrid

Faðir Fati hefur látið hafa það eftir sér að tilboð Real Madrid hafi verið fjárhagslega hagstæðara en forráðamenn Barcelona hafi hins vegar lagt meiri vinnu í að sannfæra hann um að sonur hans færi í hina víðfrægu akademíu Barcelona-manna, La Masia.

Félagaskiptabannið sem Barcelona var sett í árið 2014 varð til þess að forráðamenn Barcelona ákváðu að láta Fati og fleiri unga leikmenn sem félagið hafði fengið til sín tímabundið til hliðar í verkefnum unglingaliðanna.

Fati fótbrotnaði svo árið 2015 en seinna það árið kom Fati sterkur til baka og skoraði meðal annars tvö mörk í undanúrslitaleik í Meistaradeild Evrópu hjá unglingaliðum gegn Chelsea og hann raðaði inn mörkum fyrir unglingalið Barcelona það tímabilið.

Frammistaða Fati með unglingaliðunum varð til þess að hann var kallaður upp í varalið Barcelona sem leikur í C-deildinni í upphafi þessa árs. Hann braut sér svo leið inn í aðallið Barcelona í sumar og til marks um það hversu mikla trú forráðamenn Barcelona hafa á leikmanninum er að þegar hann gerði samning við félagið í sumar var sett ákvæði í samninginn um að hann gæti yfirgefið félagið ef tilboð berst í hann upp á 100 milljónir evra eða meira.

Meiðsli í framlínu Barcelona komu Fati til góða

Meiðslavandræði Barcelona sem hefur verið án Luis Suárez, Ousmane Dembele og Lionel Messi í upphafi leiktíðarinnar urður til þess að Ernesto Valverde þjálfari liðsins ákvað að kalla Fati í leikmanahópinn í fyrsta heimaleik Barcelona í deildinni á leiktíðinni gegn Real Betis.

Fati kom inná sem varamaður í þeim leik og eftir leikinn fékk hann fallega kveðju frá stórstjörnu liðsins, Messi, á samfélagsmiðlum sem segir sitt um það hversu vel hann hefur látið til sín taka á fyrstu vikum sínum með aðalliðinu.

Í næsta deildarleik þar á eftir sem var á móti Osasuna kom Fati inná sem varamaður og hann þakkaði traustið með því að skora og varð þar af leiðandi yngsti markaskorari í sögu Barcelona.

Sú spilamennska varð til þess að Fati var í byrjunarliði Barcelona þegar liðið mætti Valencia um helgina. Þar skoraði hann bæði og lagði upp eins og áður segir og ljóst að þarna er um rísandi stjörnu að ræða. Antoine Griezmann, Dembele og Suárez þurfa að hafa fyrir því að halda sætum sínum í byrjunarliðinu á keppnistímabilinu.