Þegar tveir dagar eru í að áfrýjunardómstóll Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, taki fyrir mál Síle gegn Ekvador og Byron Castillo birti Daily Mail í Bretlandi hljóðbút þar sem Castillo virðist viðurkenna að hann hafi falsað fæðingarskjölin sín.

Á þeim tíma ákvað knattspyrnusamband Ekvadors að rannsaka uppruna leikmanna sinna vegna gruns um að það væru ólöglegir leikmenn í yngri landsliðum Ekvadors.

Í viðtalinu sem var tekið árið 2018 viðurkennir Castillo að hann héti í raun Bayron Javier Castillo Segura og væri fæddur árið 1995 en ekki 1998.

Það er í takt við skjölin sem Síle hefur undir höndunum um að Castillo hafi fæðst í Kólumbíu árið 1995 en ekki sem Byron David Castillo Segura í Ekvador þremur árum síðar.

Í viðtalinu viðurkennir Castillo um leið að hann sé frá Tumaco í Kólumbíu en að viðskiptamaður frá Ekvador hafi aðstoðað hann við að falsa fæðingarskjöl og að flytjast til Ekvador.

Eins og hefur verið fjallað um á vef Fréttablaðsins sendi Síle inn kæru vegna þátttöku Castillo í leikjum Ekvadors í undankeppni HM 2022.

Ekvador komst í lokakeppnina og á að spila opnunarleik HM 2022 gegn Katar þann 20. nóvember næstkomandi.

Áður var búið að úrskurða Ekvador í hag en Síle áfrýjaði úrskurðinum til áfrýjunardómstóls FIFA sem tekur málið fyrir á fimmtudag.

Þar mun Castillo þurfa að svara spurningum áfrýjunarnefndarinnar, rúmum tveimur mánuðum fyrir fyrsta leik á HM.