Benedikt Rúnar Guðmundsson, landsliðsþjálfari kvenna í körfubolta, hefur valið leikmannahóp sinm fyrir fyrstu tvo leikina í undankeppni EuroBasket 2023 sem hefst núna í nóvember.

Mótherjar Íslands í riðlinum eru Spánn, Ungverjaland og Rúmenía. Ísland við Rúmeníu í Búkarest 11. nóvember og svo gegn Ungverjalandi í Ólafssal að Ásvöllum sunnudaginn 14. nóvember.

Hildur Björg Kjartansdóttir, leikmaður Vals, og Isabella Ósk Sigurðardóttir, sem leikur með Breiðabliki, eru báðar meiddar og geta ekki tekið þátt í þessum leikjum.

Þá hefur Guðbjörg Sverrisdóttir, sem spilar með Val, einnig verið að glíma við meiðsli að undanförnu og er hún af þeim sökum ekki valin í hópinn að þessu sinni. Haukakonan Helena Sverrisdóttir er valin í hópinn þrátt fyrir hnémeiðsli hennar.

Sigrún Björg Ólafsdóttir, sem leikur í háskóla í Bandaríkjunum, var valin í hópinn, en gat ekki tekið þátt að þessu sinni vegna anna með skólanum úti.

Þrír nýliðar eru í hópnum fyrir komandi verkefni en það eru Anna Ingunn Svansdóttir úr Keflavík, Fjölniskonan Dagný Lísa Davíðsdóttir og Elísabeth Ýr Ægisdóttir, leikmaður Hauka.

Íslenska liðið er þannig skipað:

Nafn · Lið (Landsleikir)

Anna Ingunn Svansdóttir · Keflavík (Nýliði)

Ásta Júlía Grímsdóttir · Valur (2)

Bríet Sif Hinriksdóttir · Haukar (6)

Dagbjört Dögg Karlsdóttir · Valur (8)

Dagný Lísa Davíðsdóttir · Fjölnir (Nýliði)

Embla Kristínardóttir · Skallagrímur (21)

Elísabeth Ýr Ægisdóttir · Haukar (Nýliði)

Hallveig Jónsdóttir · Valur (25)

Helena Sverrisdóttir · Haukar (77)

Lovísa Björt Henningsdóttir · Haukar (6)

Sara Rún Hinriksdóttir · Phoenix Constanta, Rúmenía (23)

Þóra Kristín Jónsdóttir · AKS Falcon, Danmörk (21)

Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari kvennaliðs Vals, mun koma inn í þjáfarateymi Benedikts Rúnars í stað Danielle Rodriguez sem fltti í vor til Bandaríkjana og tók að sér aðstoðarþjálfarastöðu í San Diego State háskólanum í Kaliforníu.

Ólafur Jónas verður ásamt Halldóri Karli Þórsyni, í aðstoðarþjálfarateymi landsliðsins.