Strákarnir í tíu jördunum, Valur Gunnarsson og Þorkell Magnússon, fóru yfir sviðið í NFL deildinni í Íþróttavikunni með Benna Bó, en það er stundum sagt að NFL deildin hefjist fyrir alvöru eftir þakkargjörðarhátíðina sem var í síðustu viku.
Einn af leikjum helgarinnar er viðureign Houston Texans og Cleveland Browns en þá snýr Deshaun Watson aftur á sinn gamla heimavöll. Hann hefur ekkert spilað í hartnær tvö ár vegna hegðunar sinnar utan vallar.
Alls hafa fleiri en 20 konur kært hann fyrir kynferðisbrot í Texas en þrátt fyrir það vildi Cleveland fá hann til liðsins.
Watson var skipt til Cleveland Browns í vor og skrifaði undir tímamótasamning í sögu deildarinnar sem tryggði honum um 230 milljónir dala. Skiptin áttu sér stað nokkrum dögum eftir að ljóst væri að Watson yrði ekki ákærður í Texas þrátt fyrir sögur kvennana sem lýstu kynferðisbrotum Watson sem áttu sér flest stað á nuddstofum.
Dómstóll í Texas ákvað að kæra ekki leikstjórnandann Watson eftir áralangt málaferli. Konurnar eru búnar að leggja fram einkamál og Watson var dæmdur í 11 leikja bann af deildinni.
Hann neitaði að svara spurningum blaðamanna í aðdraganda leiksins nema þeim sem snérust að málefnum liðsins og það sem gerist innanvallar.
„Það varð allt vitlaust yfir þessum félagaskiptum. Það var talað um að hann ætti ekkert að fara í neitt lið,“ benti Valur á. „Hann samdi sig út úr þessu og gerði í kjölfarið stærsta samning í sögu NFL, eins eðlilegt og það er,“ bætti Þorkell við. „Hann er að fá milljarða borgaða með þetta á bakinu og allir vita hvað hann er mikið gerpi.
Hvernig móttökur fær hann? Ég held að þetta verði eins og þegar Figo snéri aftur til Barcelona forðum daga,“ sagði Valur.
Þorkell benti á að tímabil Cleveland Browns hefði gengið illa þannig það væri engin gleði heldur í þeirra herbúðum.
Sjá einnig: