Strákarnir í tíu jördunum, Valur Gunnars­son og Þor­kell Magnús­son, fóru yfir sviðið í NFL deildinni í Í­þrótta­vikunni með Benna Bó, en það er stundum sagt að NFL deildin hefjist fyrir al­vöru eftir þakkar­gjörðar­há­tíðina sem var í síðustu viku.

Einn af leikjum helgarinnar er viður­eign Hou­ston Texans og Cle­veland Browns en þá snýr Des­haun Wat­son aftur á sinn gamla heima­völl. Hann hefur ekkert spilað í hart­nær tvö ár vegna hegðunar sinnar utan vallar.

Alls hafa fleiri en 20 konur kært hann fyrir kyn­ferðis­brot í Texas en þrátt fyrir það vildi Cle­veland fá hann til liðsins.

Wat­son var skipt til Cle­veland Browns í vor og skrifaði undir tíma­móta­samning í sögu deildarinnar sem tryggði honum um 230 milljónir dala. Skiptin áttu sér stað nokkrum dögum eftir að ljóst væri að Wat­son yrði ekki á­kærður í Texas þrátt fyrir sögur kvennana sem lýstu kyn­ferðis­brotum Wat­son sem áttu sér flest stað á nudd­stofum.

Dóm­stóll í Texas á­kvað að kæra ekki leik­stjórnandann Wat­son eftir ára­langt mála­ferli. Konurnar eru búnar að leggja fram einka­mál og Wat­son var dæmdur í 11 leikja bann af deildinni.

Hann neitaði að svara spurningum blaða­manna í að­draganda leiksins nema þeim sem snérust að mál­efnum liðsins og það sem gerist innan­vallar.

„Það varð allt vit­laust yfir þessum fé­laga­skiptum. Það var talað um að hann ætti ekkert að fara í neitt lið,“ benti Valur á. „Hann samdi sig út úr þessu og gerði í kjöl­farið stærsta samning í sögu NFL, eins eðli­legt og það er,“ bætti Þor­kell við. „Hann er að fá milljarða borgaða með þetta á bakinu og allir vita hvað hann er mikið gerpi.
Hvernig mót­tökur fær hann? Ég held að þetta verði eins og þegar Figo snéri aftur til Barcelona forðum daga,“ sagði Valur.

Þor­kell benti á að tíma­bil Cle­veland Browns hefði gengið illa þannig það væri engin gleði heldur í þeirra her­búðum.

Sjá einnig: