Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu segir endurheimt liðsins hafa gengið vel milli leikja á Evrópumótinu. Ísland mætir Ítalíu í öðrum leik sínum á EM á morgun.

Þorsteinn og Dagný Brynjarsdóttir sátu fyrir svörum á blaðamannafundi íslenska liðsins fyrir leikinn mikilvæga gegn Ítalíu á morgun. Leikið verður á Manchester City Academy vellinum í Manchester og hefjast leikar klukkan 16:00.

Vörðust vel í fyrsta leiknum

Dagný segir að varnarleikur liðsins sé einn af jákvæðu punktunum sem íslenska liðið getur tekið með sér úr leiknum gegn Belgum. ,,Við gáfum ekki mörg færi á okkur í þeim leik og vörumst vel frá fremsta manni til þess aftasta. Við getum tekið það með okkur í þennan leik."

Andstæðingur morgundagsins eru Ítalir sem fengu skell í fyrsta leik sínum á mótinu gegn Frakklandi. Dagný segist ekki horfa of mikið í þau úrslit fyrir leik morgundagsins.

,,Ég var ekkert mikið að spá í þessum úrslitum en auðvitað var maður hissa á að þetta hafi farið svona. Það er ekki svona mikill munur á milli þessara liða. Við höfum farið vel yfir þetta með þjálfarateyminu og þetta var vel úr karakter Ítala en þetta var annar leikur og skiptir ekki svo miklu fyrir okkur."

Vill nýta færin betur

Aðspurð hvernig hún myndi meta frammistöðu sína í leiknum gegn Belgum hafði Dagný þetta að segja:

,,Ég er ekkert alveg ótrúlega sátt með fyrri hálfleikinn hjá mér í leiknum gegn Belgum en ef ég fæ einhver færi vil ég nýta þau betur, allavegna koma þeim á markið. Mitt hlutverk sem djúp á miðju verður líklegast að skipta boltanum milli vængja og vera yfirveguð á boltanum og hjálpa til í varnarleiknum við að stoppa sóknir Ítalana.

Gott að geta hitt fjölskylduna

Hún segir endurheimt liðsins milli leikja hafa gengið mjög vel.

,,Við erum með frábæra sjúkraþjálfara og kokk sem gefur okkur nóg af góðum mat, þá höfum við fengið að sofa aðeins út. Þetta hefur gengið rosalega vel og allir leikmenn eins ferskir og þeir geta verið."

Þá hafi leikmenn fengið tækifæri til þess að eyða tíma með fjölskyldum sínum milli leikja.

,,Það er rosalega mikilvægt því við þurfum ekki síður ná endurheimt á andlegu hliðinni eins og þeirri líkamlegu. Það var rosalega gott að hitta fá tækifæri til að hitta fjölskylduna."

Um leik morgundagsins gegn Ítalíu hafði Dagný þetta að segja:

,,Við erum tilbúnar og hlökkum til að mæta þeim. Undirbúningurinn hefur verið góður og spennustigið er betra. Nú verðum við klárar frá fyrstu mínútu.

Ánægjuleg heimsókn og hvatningarorð

Liðið fékk heimsókn í hádeginu frá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands og Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra. Dagný segir heimsóknina kærkomna:

,,Guðni var að peppa okkur og segja okkur hversu stoltir allir væru af okkur heima. Það var bara mjög gott að fá svona hvatningarorð," sagði Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu á blaðamannafundi í dag.