Ísland lék síðasta leik sinn í undankeppni HM 2022 í gær þegar Ísland tapaði 1-3 gegn Norður-Makedóníu í Skopje og fékk Ísland aðeins níu stig af þrjátíu mögulegum.

Þetta var fyrsta undankeppni liðsins undir stjórn nýs þjálfarateymis sem þurfti um leið að takast á við fjölmörg vandamál utan vallar í tengslum við ofbeldisbrot leikmanna landsliðsins.

Fyrir vikið þurftu Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen að nota 36 leikmenn í undankeppninni, þar af 33 útileikmenn.

Til samanburðar notaðist Heimir Hallgrímsson við 22 leikmenn í undankeppni HM 2018, þar af tuttugu útileikmenn þegar Ísland komst í lokakeppni HM í fyrsta sinn.

Í undankeppninni fyrir EM 2016 notaði íslenska liðið enn færri leikmenn, tuttugu leikmenn, þar af átján útileikmenn.

Af þeim 36 leikmönnum sem komu við sögu í nýafstaðinni undankeppni var aðeins einn þeirra, Birkir Bjarnason, sem kom við sögu í öllum tíu leikjum íslenska liðsins.

Birkir lék 876 af 900 mínútum íslenska liðsins og bætti um leið leikjamet karlalandsliðsins.

Albert Guðmundsson kom við sögu í níu leikjum af tíu en tók út leikbann í fyrri leik Íslands og Liechtenstein.

Þrátt fyrir að hafa ekki verið í leikmannahópi Íslands í fyrstu sex leikjunum lék Elías Rafn Ólafsson flestar mínútur í marki Íslands.

Hannes Þór Halldórsson og Rúnar Alex Rúnarsson léku þrjá leiki hvor en Elías lék síðustu fjóra leiki Íslands í undankeppninni.

Hannes tilkynnti eftir leik Íslands og Þýskalands á Laugardalsvelli að landsliðsferlinum væri lokið.