Athygli vakti að sóknarmaðurinn Albert Guðmundsson kom lítið sem ekkert við sögu í 2-2 jafntefli Íslands og Ísrael í gær en aðeins þrír leikmenn fengu færri mínútur í liði Íslands í keppnisleikjunum þremur í nýafstöðnum landsleikjaglugga.

Alberti var skipt inn á völlinn í uppbótartíma þrátt fyrir að staðan væri jöfn og að Ísland hefði notið góðs af sigri til að styrkja stöðu liðsins í riðlinum.

Vesturbæingurinn fékk aðeins 31. mínútu í þremur leikjum Íslands í Þjóðardeildinni. Aðeins Mikael Egill Ellertsson (16), Stefán Teitur Þórðarson (23) og Aron Elís Þrándarson (28) fengu færri mínútu í leikjunum þremur.

Þess skal getið að Albert lék 87. mínútur í æfingaleik Íslands gegn San Marínó á dögunum og náði sér ekki á strik, frekar en liðsfélagar hans í leik sem olli miklum vonbrigðum af hálfu íslenska liðsins.

Arnar Þór viðurkenndi eftir leik að Albert væri skiljanlega ekki sáttur með hlutverk sitt en að það væri ekki rétt að hann hefði lent í rifrildi við sóknartengiliðinn í landsliðsverkefninu.