Kanarífuglarnir í Norwich urðu í dag fyrsta liðið til að vinna Manchester City í deildinni í 228 daga þegar Norwich vann 3-2 sigur á meisturunum.

Þetta er annar sigur nýliðanna á tímabilinu sem fleytir Norwich upp úr 18. sæti í það tólfta.

Kenny McLean og Todd Cantwell komu lemstruðu liði Norwich 2-0 yfir snemma leiks þrátt fyrir að Norwich hafi saknað nokkurra lykilleikmanna.

Sergio Aguero minnkaði muninn fyrir gestina undir lok fyrri hálfleiks og var staðan 2-1 fyrir heimamenn í hálfleik.

Teemu Pukki bætti við þriðja marki Norwich í upphafi seinni hálfleiks þegar Nicolas Otamendi gerði afdrifarík mistök og færði Norwich mark á silfurfati.

Rodri minnkaði muninn á ný á 88. mínútu leiksins og hleypti spennu í leikinn á ný en lengra komust gestirnir ekki.