Ísland tapaði síðasta leik sínum 33-35 gegn Noregi á HM í Egyptalandi sem þýðir að Ísland vann tvo leiki af sjö í mótinu.

Með sigrinum fara Norðmenn áfram í átta liða úrslitin en Íslendingar lenda í fimmta sæti milliriðilsins.

Strákarnir okkar byrjuðu leikinn af krafti og voru með frumkvæðið fyrstu tíu mínútur leiksins. Tvisvar tókst Íslandi að ná tveggja marka forskoti en Norðmenn svöruðu um hæl.

Á elleftu mínútu leiksins náðu Norðmenn forskotinu sem fór mest upp í fjögur mörk en Íslendingar lögðu ekki árar í bát og héldu í við silfurliðið frá HM 2019 og 2017.

Eftir vandræði í sóknarleiknum framan af móts gekk mun betur að finna leiðina að netmöskvum andstæðinganna í dag.

Bjarki Már skorar eitt af tólf mörkum sínum í leiknum.
fréttablaðið/epa

Ólafur Andrés Guðmundsson minnkaði muninn í eitt mark þegar fimm mínútur voru til leiksloka en vörninni tókst ekki að ná stoppi þegar reyndi mest á og náðu Norðmenn að halda út.

Bjarki Már Elísson var markahæstur í íslenska liðinu með tólf mörk og kom Ólafur næstur með tíu mörk.

Elliði Snær Vignisson, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon voru svo allir með átta mörk hver.

Óvíst er hver lokastaða Ísland verður á mótinu en það kemur í ljós í kvöld þegar lokaleikir milliriðlana fara fram.