Tuttugu og fjögurra daga gamalt hjónaband Micaelu Mesquita við fyrrum atvinnu- og landsliðsmann Brasilíu í knattspyrnu, Adriano, er sagt í molum eftir að sá síðarnefndi hvarf í tvo daga til þess að fylgjast með HM í Katar án þess að láta hvorki kóng né prest vita af fyrirætlunum sínum.
Greint er frá málavendingum í EXTRA í dag þar sem segir að hjónin Micaela og Adriano hafi rifist heiftarlega í kjölfar hvarfs hans, nú sé skilnaður á næsta leiti.
Adriano er sagður hafa ekið til Vila Cruzeiro í Rio de Janeiro í Brasilíu til þess að hitta vini sína og horfa á leik Brasilíu og Sviss í sjónvarpinu með þeim. Hann hafi eytt tveimur dögum í Vila Cruzeiro áður en hann sneri aftur heim til Mesquita.
Nú hefur Mesquita eytt öllum Instagram færslum sínum þar sem hún sést með Adriano og gerist það aðeins nokkrum vikum eftir að þau giftu sig.
Hins vegar er það ekki nýtt af nálinni að parið rífist og haldi í sitthvora áttina, það er sagt hafa gerst fimm sinnum áður en alltaf enda þau aftur saman. Nú er spurning hvort það sé til frambúðar.
Adriano lék á sínum atvinnumannaferli í knattspyrnu með félagsliðum á borð við Inter Milan og Roma. Þá á hann að baki 48 A-landsleiki fyrir Brasilíu.
Vafasöm hegðun Adriano hefur áður komið honum í fréttirnar en árið 2015 var hann sagður hafa keypt sér þjónustu 18 vændiskvenna fyrir um 13 þúsund pund, því sem jafngildir rúmum 2,2 milljónum íslenskra króna.
Það er hann sagður hafa gert til þess að reyna jafna sig á félagsskiptum til franska liðsins Le Havre sem gengu ekki í gegn.