Guðni Valur Guðnason tók þátt í sínu fyrsta alþjóðlega móti utanhúss í kringlukasti í tæp tvö ár og kastaði kringlunni 63,66 metra á móti sem haldið var í Split um síðustu helgi.

Íslandsmethafinn telur sig eiga töluvert inni og er vongóður um að ná að tryggja sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum sem fram fara í Tókýó í ágúst.

„Það var mjög gott að komast aftur á alþjóðlegt mót og sjá hvar ég stend með nokkrum af sterkustu kringlukösturum heims. Ég hef verið við æfingar á Tenerife síðasta mánuðinn um það bil og það hefur gert mér mjög gott.

Ég er í mjög góðu líkamlegu formi og ég myndi halda að ég væri nokkrum vikum á undan áætlun miðað við venjulegt ár hvað form varðar.

Þetta var fín kastsería en ég finn það alveg að ég á nóg inni og það var kraftur í líkamanum til þess að kasta lengra,“ segir Guðni Valur en hann ákvað að halda til Tenerife til þess að æfa sökum aðstöðuleysis hér heima og þar sem verið var að skella öllu í lás vegna kórónaveiru­faraldursins.

Hitinn hefur haft góð áhrif

„Það hefur verið mjög þægilegt að geta kastað við góðar aðstæður í miklum hita síðustu vikurnar. Nú er bara að komast í takt aftur hvað keppnisform varðar. Fram undan er vinna við að bæta tæknina og það kemur allt. Þetta hafa verið skrýtnir tímar vegna veirunnar síðustu ár og mikið púsluspil að skipuleggja sig hvað mótahald varðar.

Það er ekkert stórmót í sumar fyrir Ólympíuleikana og ég er í hálfgerðum interrail-fíling að finna góð mót og staði til að æfa í aðdraganda þeirra. Næstu tvö verkefni eru sterk mót í Zagreb og Helsingborg og ég hlakka mikið til þess að keppa þar.

Ég þarf annað hvort að ná kasti upp á 66 metra eða safna nógu mörgum stigum til þess að tryggja mér farseðil til Tókýó og það er klárlega raunhæft. Ég hugsa að ég hafi aldrei kastað svona langt á þessum tíma árs á ferlinum og það gefur góð fyrirheit um það sem koma skal,“ segir þessi öflugi kringlukastari.

„Það er auðvitað allt annað að vera að kasta kringlu einn á Tenerife en að keppa á mótum og bætingin verður mun örari og meiri þegar maður er að keppa reglulega á mótum. Ég er ekki alveg viss um að hvað ég geri eftir Zagreb og Helsingborg en það kemur bara í ljós.

Síðustu mánuðir hafa kennt manni það að taka bara einn dag og eina viku í einu og vera snöggur að aðlagast breyttum aðstæðum. Það væri auðvitað þægilegra að vera með fleiri fasta punkta í planinu en svona er þetta bara og maður verður bara að gera það besta úr aðstæðunum sem eru til staðar.

Svo fer þessi blessaða veira vonandi að kveðja okkur eða við afreksíþróttamenn að komast í bólusetningu þannig að maður geti verði áhyggjulausari við æfingar og keppni.

Jákvæðu tíðindin eru allavega þau að mér líður vel, ég er í góðu formi og er bjartsýnn á gott gengi í næstu mótum,“ segir Guðni um framhaldið