Nói Snæhólm Ólafs­son verður annar íslenski leikmaðurinn sem leikur í slóvakísku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla á komandi keppnistímabili.

Nói Snæhólm sem hefur leikið með sænska liðinu Syrianska samdi við Senica í dag en samningur hans við félagið er til tveggja ára. Áður hafði Birkir Valur Jónsson gengið til liðs við Spartak Trnava frá HK.

Þessi 26 ára gamli varnarmaður hefur auk Syrianska leikið með Frej, Nyköp­ing í Svíþjóð en þangað flutti hann ungur að árum eftir að hafa alist upp í Vesturbænum hjá KR.