Körfuboltamaðurinn Hilmar Pétursson hefur skrifað samning við uppeldisfélag sitt, Hauka, en hann er annar leikmaður sem gengur til liðs við Hafnarfjarðarliðið á jafn mörgum dögum.

„Ég er virkilega glaður að vera kominn aftur heim í Hauka og er mjög spenntur að geta farið að byrja að æfa og spila á ný og að takast á við næstu áskorun,“ sagði Hilmar í samtali við heimasíðu Hauka um vistaskiptin. Hilmar spilaði síðustu tvö keppnistímabil með Breiðabliki en hann lék upp alla yngri flokkana með Haukum.

Israel Martin, þjálfari Hauka er spenntur fyrir komu Hilmars „Ég er mjög ánægður að fá Hilmar aftur. Hann er orðinn þroskaðri leikmaður en hann átti mjög gott tímabil í fyrra með Breiðablik og ég er viss um að hann bæta miklu við leik okkar næsta vetur,“ segir Spánverjinn.

Í gær greindu Haukar frá því að Ragnar Nathana­els­son hafi gengið til liðs við félagið enn hann fékk ekki áframhaldandandi samning hjá Valsmönnum eftir að Finnur Freyr Stefánson tók við stjórnartaumunum þar í vor.