Vettvangur fyrir alla í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi að leita til ef þau fá óviðeigandi skilaboð og vilja að sendandi hætti áreitni, auk annars konar óviðeigandi hegðunar, er til. Sigurbjörg Sigurpálsdóttir er samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs hér á landi og tekur við ábendingum, tilkynningum og kvörtunum sem varða einelti, ofbeldi og áreitni í íþrótta- eða æskulýðsstarfi. Starfið var sett á fót í fyrra og hefur það verið kynnt fyrir þeim samtökum og félögum sem um ræðir en sökum COVID hefur umfjöllun og kynning á úrræðinu verið minni en best væri á kosið. Þrátt fyrir það er nóg að gera.

Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs.
Fréttablaðið/aðsend

Töluvert hefur verið rætt og ritað um óviðeigandi skilaboð sem virðast hafa komið upp í körfuboltasamfélaginu hér á landi, eftir að dómari var settur af vegna slíkra skilaboða til leikmanns. Við nánari eftirgrennslan hefur komið í ljós að það hafi gerst að aðrir dómarar og þjálfarar hafi sent skilaboð til leikmanna kvennaliða og fylgist jafnvel með þeim á samfélagsmiðlum. Þó svo að umræðan snúi að einum vettvangi núna þá er hægt að gera ráð fyrir því að svipuð dæmi finnist annars staðar.

Sigurbjörg segir að allir eigi rétt á því að geta stundað sitt íþrótta- og/eða æskulýðsstarf í öruggu umhverfi. Hún sé óháður aðili sem styður við, leiðbeinir og aðstoðar þá sem hafa upplifað einhvers konar ofbeldi eða einelti í slíku starfi og er þjónustan frí. Hún vonar að hlutleysi úrræðisins hvetji fólk til þess að hafa samband ef þörf er á aðstoð.

„Því miður er alveg nóg að gera. Þannig viljum við samt eiginlega hafa það. Við viljum að þessi mál séu á yfirborðinu og séu rædd. Þegar ekkert er að frétta þá hefur maður meiri áhyggjur,„ segir hún. Hún bætir við að allir iðkendur, starfsmenn og sjálfboðaliðar, hvort sem það séu börn eða fullorðnir, eigi rétt á því að leita sér aðstoðar eða geti leitað réttar síns vegna atvika sem eiga sér stað, án þess að þurfa að óttast afleiðingar.

„Tölfræðin sýnir okkur að áreitni, ofbeldi og einelti kemur upp á alls konar vettvangi,“ segir hún, en Sigurbjörg getur, samkvæmt lögum sem sett voru um samskiptaráðgjafa, krafið þá sem skipuleggja eða bera ábyrgð á íþrótta- eða æskulýðsstarfi um allar þær upplýsingar sem hún metur nauðsynlegar til að hún geti sinnt hlutverki sínu. Er viðkomandi aðilum skylt að láta ráðgjafanum í té umbeðnar upplýsingar.

Hún segir að þó umfjöllunin snúi oft að óviðeigandi framkomu gagnvart stúlkum eða konum þá lendi karlmenn líka í einelti, áreitni og ofbeldi. Þeir séu, sem sé miður, ólíklegri að segja frá. „Mitt starf varðar einelti, áreitni og ofbeldi og karlmenn tilkynna slíkt síður. Það er alveg til tölfræði um það. Karlmenn lenda vissulega í þessum atriðum en tilkynna síður almennt séð.“

Hún segir þó að unga fólkið sé opnara og tilbúnara til að láta vita af óviðeigandi hegðun, en þjónusta samskiptaráðgjafa er fyrir alla sem sækja skipulagðar æfingar eða félagsstarf hjá skátunum, KFUM og KFUK, Landssambandi ungmennafélaga, íþróttafélögum eða bandalögum sem tilheyra UMFÍ og ÍSÍ. „Þetta er vonandi merki um breytta tíma og breytt viðhorf.

Vonandi erum við búin að færa normið. Þegar ég hugsa til baka þá upplifði ég fullt af óviðeigandi framkomu, snertingu eða orðalagi. En ég er líka fegin að þetta var ekki verra. Vonandi er normið okkar í þessum atriðum að breytast. Okkur finnst ekki lengur í lagi að einhver komi fram við annan einstakling á ósæmilegan hátt, kalli einhvern nöfnum, sé með einhvern klúran brandara eða athugasemdir. Það eiga allir að geta sinnt sínu íþrótta- og æskulýðsstarfi þannig að hægt sé að njóta, en ekki hafa í kollinum hvernig verði komið fram við viðkomandi á næstu æfingu.Aukið öryggi eykur ánægju og trúlega skilar betri einstaklingum og íþróttamönnum.“

Hún segist stefna á kynningarferð í kringum landið sem fyrst, en COVID hafi hamlað för þannig að hún sé ekki búin að ná að fara í þá ferð enn þá. „Það er eitt af því sem mig langar að gera að fara í heimabyggðir. Ég vil ekki að landsbyggðin verði út undan í neinu og ég vil ekki að neinn þurfi að líða fyrir staðsetningu sína á landinu. Þegar mál hafa komið upp, þá hef ég farið á staðinn. Fjarviðtöl bjarga ýmsu en það er öðruvísi en að mæta á staðinn og mikilvægt að mínu mati.“