Njarðvík og Stjarnan unnu fyrstu leiki liðanna í úrslitakeppni Dominos-deildar karla í kvöld en lentu í vandræðum gegn ÍR og Grindavík.

Þetta voru fyrstu leikirnir í úrslitakeppninni þetta árið þar sem deildarmeistararnir í Stjörnunni mættu Grindavík á meðan Njarðvík tók á móti ÍR.

ÍR-ingar byrjuðu leikinn af krafti því Njarðvík átti í stökustu vandræðum með að finna lausn á varnarleik Breiðhyltinga í fyrri hálfleik. Á sama tíma gekk sóknarleikur ÍR vel og leiddi ÍR lengst af í fyrri hálfleik.

Logi Gunnarsson hélt lífi í Njarðvíkingum og setti fimmtán stig og þegar aðrir leikmenn náðu takti þá náðu heimamenn forskotinu í Ljónagryfjunni rétt fyrir lok hálfleiksins.

Njarðvík komst tíu stigum yfir í upphafi þriðja leikhluta en ÍR með Kevin Capers fremstan í flokki náði að jafna á ný. Capers missti hausinn undir lok leikhlutans þegar hann sló til Jón Arnórs Sverrissonar og var vísað úr húsi.

Þrátt fyrir að vera án Capers í lokaleikhlutanum var ÍR inn í leiknum allt til loka leiksins. Hákon Örn Hjálmarsson fékk opið skot til að jafna leikinn á lokasekúndunum en skotið geigaði.

Lokatölur 76-71, Njarðvík í hag og taka Njarðvíkingar því forskotið í einvígi liðanna fyrir næsta leik í Seljaskóla.

Í Garðabænum neituðu Grindvíkingar að gefast upp þrátt fyrir að vera tuttugu stigum undir rétt fyrir lok fyrri hálfleiks í níu stiga sigri Stjörnunnar.

Ekki var búist við því að Grindavík myndi ná að stríða Garðbæingum í þessu einvígi en Grindvíkingar virðast komast í annan ham í úrslitakeppninni.

Garðbæingar voru sterkari aðilinn framan af og leiddu með sex stigum eftir fyrsta leikhluta. Annar leikhluti hófst á 19-5 kafla Garðbæinga en Grindvíkingar gáfust ekki upp.

Hægt og bítandi náðu þeir að minnka forskot Stjörnunnar og komust yfir fimm mínútum fyrir leikslok en það virtist vekja leikmenn Stjörnunnar aftur til lífsins.

Á lokamínútum leiksins skelltu Garðbæingar í lás og sigldu sigrinum heim, lokatölur 89-80 fyrir Stjörnuna.