Ársþing Knattspyrnusambands Íslands fór fram um nýliðna helgi en helsta hitamálið á þinginu var kosning um framtíðarfyrirkomulag móta í efstu deild karla í knattspyrnu. Þar var að lokum kosið um tvær tillögur, annars vegar tillögu Fram um að fjölga liðum í efstu deild í 14, og hins vegar tillögu starfshóps á vegum KSÍ um að setja á laggirnar úrslitakeppni efri og neðri hluta 12 liða deildar.

Í aðdraganda ársþingsins voru alls fjórar tillögur sem stóðu til boða en á síðustu stundu ákváðu ÍA og Fylkir að draga tillögur sínar til baka. Eftir stóð tillaga KSÍ um að halda 12 liða deild en bæta við úrslitakeppninni annars vegar og tillaga Fram um að taka upp 14 liða efstu deild og leika tvöfalda umferð.

Báðum tillögunum var hafnað og þar af leiðandi mun áfram vera leikin tvöföld umferð í 12 liða deild og sú hugmynd sem virtist vera samhljómur um fyrir þingið, að fjölga leikjum í efstu deild, náði ekki fram að ganga.

E. Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, segir þessa niðurstöðu ekki vera til heilla fyrir íslenska knattspyrnu og það hamli eðlilegri framþróun og vexti að ekki hafi náðst sátt um að fjölga leikjum milli bestu liða Íslands hverju sinni og liða á svipuðu getustigi. Þetta verði til þess að íslensk knattspyrna muni spóla áfram í sömu hjólförunum.

„Þetta eru mikil vonbrigði að mínu mati, því er ekki að leyna. Tillaga starfshóps KSÍ var ákveðin málamiðlun milli þeirra félaga sem eru í efstu deild og neðri deildanna. Af þeim sökum finnst mér það bagalegt að hún hafi ekki fengið brautargengi og þeim félögum sem vilja og hafa getu til að taka rökrétt skref í átt að atvinnumennsku sé haldið niðri.

Það er líklegt til þess að bæta íslenska knattspyrnu og bæta árangur í Evrópukeppni að fjölga leikjum milli bestu liða landsins. Þannig fáum við fleiri samkeppnishæfa leiki þar sem bestu leikmenn sem leika hérlendis mætast og þeir bæta sig mest með því að mætast innbyrðis. Eins má segja að með því að bæta deildina, bæta umgjörð, auka magn og gæði æfinga og gera hana sterkari þá séu auknar líkur á að ungir leikmenn fari héðan til betri liða erlendis en þeir gera í dag og bæti íslenska landsliðið um leið,“ segir Börkur um stöðu mála.

Hann telur að það sé mikilvægt að fjölga leikjum til að auka markaðsverðmæti deildarinnar þegar sest verður við samningaborðið um nýjan sjónvarpssamning.

„Það er slæmt að farið hafi verið á mis við það að fjölga gæðaleikjum í efstu deild sem gæti aukið markaðsverðmæti efstu deildar nú þegar gengið er til samninga um sjónvarpsréttinn til næstu ára. Það hefur sýnt sig í árangri íslenskra félagsliða síðustu ár í Evrópukeppnum að aðgerða er þörf og það er miður að engin skref hafi verið tekin í átt til þess að bæta samkeppnishæfni íslenskrar knattspyrnu á þessu ársþingi,“ segir hann enn fremur.

„Ég held að það sé ljóst eftir þetta þing að sá sáttagrundvöllur sem þarf að vera og á að vera til staðar hjá félögunum sem eru innan íslensks toppfótbolta (félögin í efstu tveimur deildum karla og kvenna) er ekki til staðar og við því þurfi að bregðast. Mér finnst það einsýnt að forráðamenn leiðandi félaga í íslenskri knattspyrnu muni hittast á næstu dögum og ræða framhaldið.

Það kemur alveg til greina að mínu mati að fara aftur í það fyrirkomulag sem var á hagsmunasamtökunum Íslenskum toppfótbolta þegar þau voru stofnuð, það er að stofna samtök sem gæta hagsmuna félaganna í efstu deild karla. Hagsmunir og framtíðarsýn flestra félaganna sem eru með lið í efstu deild í knattspyrnu eru ekki í takt við önnur félög og við því þarf að bregðast,“ segir formaður Vals um næstu skref.

„Það kann ekki góðri lukku að stýra né getur talist eðlilegt að félög sem eru í neðri deildum stjórni því hvernig fyrirkomulagið sé í efstu deild þvert á vilja þeirra félaga sem þar leika,“ segir hann um þá stöðu sem nú er uppi.

Börkur Edvardsson.