Valsmenn eru í frjálsu falli í Dominos-deild karla en þeir töpuðu níunda leiknum af síðustu tíu þegar ÍR-ingar komu í heimsókn í kvöld.

Valur leiddi með tólf stigum í hálfleik en leikur liðsins hrundi í þriðja leikhluta og vann ÍR seinni hálfleikinn með 22 stigum, 54-32.

Með sigrinum er ÍR aftur komið á beinu brautina í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Á sama tíma vann KR nokkuð sannfærandi sigur á Fjölni 96-83 í DHL-höllinni.

KR-ingar léku á als oddi í byrjun og leiddu með átján stigum eftir fyrsta leikhluta en Fjölnismenn gáfust ekki upp og söxuðu á forskot KR þótt að þeir hafi aldrei ógnað forystunni.