Chioma Ubogagu, leikmaður kvennaliðs Tottenham, var í dag dæmd í níu mánaða bann eftir að hafa notað ólögleg lyf. Að sögn Tottenham var það húðlyf sem Chioma var að taka inn.

Tottenham fullyrðir að Chioma hafi fengið útskrifað tvær tegundir að lyfjum vegna húðsjúkdóms í Bandaríkjunum. Annað þeirra, spironolactone, er á bannlista lyfjaeftirlitsins.

Þegar Chioma óskaði eftir lyfseðli fyrir nýjum skammti af lyfinu komst læknateymi Tottenham að því að um væri að ræða lyf á bannlista.

Chioma kom við sögu í níu leikjum á nýafstöðnu tímabili eftir að hafa leikið með Real Madrid á síðasta ári en kom ekkert við sögu eftir að þetta mál kom í ljós.

Bannið er reiknað frá janúarmánuði og er Chioma því í banni fram á haust og ætti því ekki að missa af mörgum leikjum á næsta tímabili. Hún á að baki þrjá leiki fyrir enska landsliðið.