Valsmenn eru komnir með níu fingur á Íslandsmeistarabikarinn eftir öruggan sigur á FH í gær 1-4. Valsmenn voru betri á öllum sviðum leiksins í gær og hafa nú unnið FH og Stjörnuna, sína helstu keppinauta, samtals 9-2. Liðið er með 11 stiga forystu á toppi deildarinnar þegar sex leikir eru eftir.

FH-ingar urðu eitthvað vanstilltir eftir að þeir vildu fá vítaspyrnu eftir um stundarfjórðung sem þeir fengu ekki. Þeir fengu mark í andlitið skömmu síðar þegar Birkir Már Sævarsson, bakvörðurinn knái, skallaði boltann í netið. Birkir hefur verið sjóðheitur að undanförnu og hefur verið að spila eins og langbesti bakvörður. Slíkt er fagnaðarefni fyrir landsliðsþjálfarana, Eric Hamrén og Frey Alexandersson.

Eitthvað gleymdu þjálfarar FH, Logi Ólafsson og Eiður Smári Guðjohnsen, að minna varnarmenn sína á gæði Patrick Pedersen inni í teig andstæðinganna því þeir skildu hann eftir aleinan og yfirgefinn inn í teig FH á 40. mínútu og Daninn þakkaði pent fyrir sig og skoraði.

Steven Lennon hleypti smá lífi í leikinn skömmu síðar með fallegu marki en þar með luku FH-ingar keppni. Gleymdu að spila síðari hálfleikinn.

Eftir um 55 sekúndur var Valur kominn í 3-1 og þegar 12 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik hafði Guðmann Þórisson fengið rautt spjald fyrir groddaralega tæklingu. Kristinn Freyr Sigurðsson gulltryggði sigurinn eftir að boltinn hafði farið í höndina á varnarmanni FH. Eftir það rúllaði Valslestin sigrinum í hús með yfirveguðum leik.