Steve Kerr, þjálfari Golde State Warriors í NBA deildinni í Bandaríkjunum afþakkaði allar spurningar frá blaðamönnum um körfubolta á blaðamannafundi fyrir viðureign Dallas Mavericks og Golden State í nótt. Kerr var miður sín eftir skotárás sem átti sér stað í grunnskóla í Texas þar sem 18 ára karlmaður skaut nítján börn og tvo kennara til bana.

,,Ég ætla ekkert að tala um körfubolta í dag. Það hefur ekkert gerst hjá liðinu síðustu sex klukkutíma. Allar spurningar um körfubolta skipta ekki máli," sagði Kerr sem þekkir það á eigin skinni hvernig það er að missa ástvin í skotárás en faðir hans var myrtur í hryðjuverkaárás í Beirút í Líbanon árið 1984.

,,Eftir að við fórum af æfingu hafa fjórtán börn og kennari verið myrt rúmum 400 mílum frá okkur og síðustu tíu daga hefur eldra svart fólk verið myrt á stórmarkaði í Buffalo, Asískir kirkjugestir myrtir í Suður-Kaliforníu og nú voru börn myrt í skólanum sínum."

Árásin átti sér stað í Robb-barnaskólanum í Uvalde en þar stunda nemendur á aldrinum sjö til tíu ára nám. Grunur leikur á að árásarmaðurinn hafi skotið ömmu sína áður en hann fór í skólann og skaut á nemendur og starfsfólk. Hann var síðan sjálfur skotinn til bana af lögreglu.

,,Hvenær ætlum við að gera eitthvað í málunum!" sagði Kerr á blaðamannafundi og var greinilega heitt í hamsi. ,,Ég er svo þreyttur á því að koma hingað, votta aðstandendum samúð mína. Ég er svo þreyttur á mínútu þögnnum. Nú er nóg komið!"

Hann beindi sjónum sínum síðan að öldungadeild Bandaríkjaþings en ítök byssuframleiðanda í stjórnmálum í Bandaríkjunum eru mikil og löggjöf um að komið verði á bakgrunnsskoðun á þeim sem kaupa og eiga byssur hefur verið óhreifð innan deildarinnar í rúm tvö ár.

,,Það eru 50 öldungardeildarþingmenn á Bandaríkjaþingi sem hafa neitað að skrifa upp á löggjöf sem myndi heimila bakgrunnsskoðun sem fulltrúadeildin samþykkti fyrir tveimur árum. Það er ástæða fyrir því að löggjöfin er ekki borin upp til atkvæðagreiðslu, þessir þingmenn vilja halda í völd sín."

,,Ég spyr ykkur Mitch McConnell (leiðtogi Repúblikana í öldungadeild) og alla aðra öldungadeildarþingmennn. Þið sem neitið að gera eitthvað í málunum, ætlið þið að setja löngun ykkar í völd ofar lífum barna okkar, eldri borgara og kirkjugesta? Þetta lítur þannig út."

Kerr segist hafa fengið algjörlega upp í kok af ástandinu en reglulega berast fréttir af mannskæðum skotárásum í Bandaríkjunum. ,,Við munum spila leik kvöldsins en ég vil að allir hérna og allir sem eru að horfa hugsi til barna sinna, barnabarna og annarra fjölskyldumeðlima. Hvernig myndi ykkur líða ef þau væru fórnarlömb þess sem átti sér stað í dag?

Hann segir að Bandaríkjamenn megi ekki láta þessar fréttir deyfa sig. Við getum ekki setið aðgerðarlaus hjá. 50 öldungadeildarþingmenn eru með okkur í gíslingu á meðan að 90% Bandaríkjamanna vilja að komið verði á laggirnar bakgrunnsskoðun svo hægt sé að skoða þá sem ætla sér að eiga byssur."

,,Þeir vilja ekki kjósa um þetta því þeir vilja halda í völd sín. Þetta er aumkunarvert, ég hef fengið nóg," sagði Steve Kerr sem yfirgaf blaðamannaherbergið í kjölfarið.