Guðmundur Guðmundsson tilkynnti í dag 19 manna hóp fyrir leikina gegn Grikklandi og Tyrklandi í undankeppni EM 2020. Leikirnir fara fram 24. og 28. október.

Guðmundur valdi þrjá línumenn í hópinn; Arnar Frey Arnarsson, Ágúst Birgisson og Ými Örn Gíslason. Þeir búa yfir takmarkaðri reynslu með landsliðinu og Guðmundur segir að kynslóðaskipti séu að eiga sér stað í þessari stöðu. Róbert Gunnarsson er hættur og á blaðamannafundinum í dag kom fram að Vignir Svavarsson hefði lagt landsliðsskóna á hilluna.

„Það er nýir menn að taka við keflinu í þessari stöðu. Þeir hafa ekki mikla reynslu,“ sagði Guðmundur í samtali við Fréttablaðið í dag.

Landsliðsþjálfarinn segir að fleiri línumenn séu á radaranum hjá sér.

„Já, ég myndi segja það. Sveinn Jóhannsson í ÍR er einn af þeim. Hann stóð sig mjög vel með U-20 ára landsliðinu í sumar,“ sagði Guðmundur.

Íslenska liðið hefur lítinn tíma til undirbúnings fyrir leikina og því verður að vinna hratt og skipulega.

„Ég er að skoða eiginleika leikmannanna og það er mikið sem þarf að koma saman á stuttum tíma. Við höfum bara tvo daga til að undirbúa okkur fyrir Grikkland og svo er ferðalag til Tyrklands,“ sagði Guðmundur.