Bandaríski íþróttavöruframleiðandinn Nike hefur ákveðið að slíta samstarfinu við Spartak Moskvu, sigursælasta félag Rússlands frá upphafi.
Í yfirlýsingu frá Spartak Moskvu kemur fram að Nike hafi gefið það til kynna að bann við rússneskum félögum í alþjóðlegum keppnum hefði orðið til þess að Nike hafi ákveðið að slíta samstarfinu.
Spartak er sigursælasta félag Rússlands frá upphafi með 37 titla allt í allt, þar af 22 meistaratitla ef litið er til deildarkeppninnar í Rússlandi og Sovétríkjunum.
Að sögn forráðamanna Spartak eru viðræður hafnar við aðra íþróttavöruframleiðendur en félagið hefur leikið í varningi frá Nike undanfarin sautján ár.