Brasilíski snillingurinn Neymar segir að Álvaro González hafi notað rasísk ummæli um sig. Neymar var einn af fimm leikmönnum sem fékk rauða spjaldið undir lok viðureignar PSG og Marseille en myndband af látunum er hér að neðan. Eftir að dómarinn hafði skoðað atvik tengt Neymar þar sem hann sást slá González í hnakkann lyfti hann upp rauða spjaldinu og rak brasilísku stórstjörnuna í bað.

„Það er auðvelt fyrir VAR að ná högginu mínu en ég vil sjá núna rasistann sem kallaði mig apa. Mér er refsað fyrir létt högg en hann?,“ sagði stjarnan í tísti eftir leik.

Gonzales fór á Twitter og svaraði fyrir sig. Sagði Neymar fara með staðlausa stafi og bætti við að sumir þyrftu líka að læra að tapa. Þá þakkaði hann Marseille fjölskyldunni fyrir stigin þrjú. André Villas-Boas, stjóri Marseille, sagði eftir leikinn að Neymar hefði verið pirraður og vonaði að atvikið myndi ekki kasta skugga á glæsilegan sigur. „Alvaro er reynslumikill leikmaður og auðvitað er ekki neitt pláss fyrir rasisma. Ég held að hann hafi ekki sést á vellinum,“ sagði stjórinn.

Alls fóru 14 spjöld á loft í leikunm sem endaði 0-1 fyrir Marseille. Þetta var fyrsti sigur félagsins á Parc des Princes í áratug. PSG er í 18. sæti í frönsku deildinni en liðið hefur tapað fyrstu tveimur leikjunum sínum.

Neymar svaraði svo Alvaro í tísti í nótt þar sem hann segir; Þú ert ekki maður að viðurkenna þín mistök. Að tapa er partur af íþróttum en að koma með rasisma inn í jöfnuna. Ég samþykki það ekki. Ég virði þig ekki, þú hefur engan karakter. Viðurkenndu það sem þú sagðir, vertu meiri maður rasistinn þinn.