Brasilíska stórstjarnan Neymar svaraði spurningum aðdáenda á Youtube-síðu sinni í dag þar sem hann sagðist stefna að því að spila einn daginn á Englandi og í bandarísku MLS-deildinni.

Neymar er afar virkur á samfélagsmiðlunum og tók við spurningum á Youtube í dag.

Meðal þeirra sem komu að spurningum voru Benjamin Mendy, bakvörður Manchester City og David Beckham, eigandi Inter Miami og goðsögn í knattspyrnuheiminum.

Mendy spurði hvort að Neymar myndi spila í ensku úrvalsdeildinni einn daginn og virtist Neymar vera hrifinn af hugmyndinni.

„Það er erfitt að segja hvað framtíðin ber í skauti með sér en enska úrvalsdeildin er ein sterkasta deild heims og bestu leikmenn heims vilja spila einn daginn á Englandi. Vonandi verður þú ennþá þar þegar ég kem,“ sagði hann og lofaði Beckham að semja við liðið hans einn daginn.

„Það er pottþétt David! Ég kem til Miami, í borgina þína og liðið þitt.“