Brasilíumaðurinn Neymar fór meiddur af velli í 3-0 sigri Paris Saint-Germain á Marseille í frönsku úrvalsdeildinni í gær.

Neymar sneri sig á ökkla þegar um 10 mínútur voru til leiksloka og var borinn af velli. Brasilíumaðurinn var greinilega sárþjáður og grét á leiðinni út af.

Óvíst er hvort Neymar verði með þegar PSG mætir Real Madrid í seinni leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu 6. mars. Real Madrid vann fyrri leikinn 3-1.

Neymar hefur skorað 29 mörk í 30 leikjum eftir að hann gekk í raðir PSG frá Barcelona fyrir metverð.

PSG er með 14 stiga forskot á toppi frönsku deildarinnar.