Sparkspekingurinn Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United og enska landsliðsins er ekki sannfærður eftir fyrstu mánuði enska úrvalsdeildarliðsins Chelsea undir stjórn Todd Boehly, eiganda félagins.

Neville telur Boehly hafa gert mistök með því að láta öfluga starfskrafta á borð við Bruce Buck, Petr Cech og Marinu Granovskaia fara frá félaginu. Hann segir stefnu félagsins í leikmannakaupum vera stefnulausa og segir pressuna vera að ná til nýja eigandans sem hefur einnig tekið að sér hlutverk yfirmanns knattspyrnumála til bráðabirgða.

Chelsea hefur til þessa fengið leikmenn á borð við Raheem Sterling, Kalidou Koulibaly og Gabriel Slonina til liðs við sig en misst af stórum nöfnum á borð við Rapinha og Jules Kounde sem gengu til liðs við Barcelona.

,,Þetta lítur allt út eins og hann sé að spila Football Manager," sagði Neville um Boehly á Sky Sports. ,,Hann er út um allt þarna núna og það er líkt og pressan sé að ná til þeirra. Boehly væri ekki undir þessari pressu ef hann hefði haldið í starfskraftana sem voru látnir fara. Fólk sem hefur verið þarna til lengri tíma og þekkir hvern krók og kima í þessari starfsemi."

Neville segir að framundan sé áhugavert tímabil hjá Chelsea. Margir leikmenn eru orðaðir við komu til félagsins þessa dagana en Neville líkir ástandinu hjá Chelsea líkt og það var hjá Manchester United með Ed Woodward sem framkvæmdastjóra.