Gary Neville, álitsgjafi Skysports um ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu karla, sagði frammistöðu Gylfa Þórs Sigurðssonar í tapi Everton á móti Tottenham Hotspur í 33. umferð deildarinnar í gærkvöldi hafa pirrað sig allt kvöldið.

Gylfi Þór átti góðan leik í sigri Everton á móti Norwich City og skoraði annað marka liðs síns þegar liðið lagði Leicester City að velli í þar síðustu umferð deildarinnar. Neville var hins vegar vonsvikinn með frammistöðu Gylfa í rimmunni við Tottenham Hotspur.

Neville tiltók sem dæmi um vonbrigði sín með íslenska landsliðsmanninn að hann hafi farið veiklulega í tæklingu við Son Heung-Min sem varð til þess að Suður-Kórumaðurinn fékk kjörið marktækifæri í kjölfarið. Það olli enska landsliðsmanninum fyrrverandi mikla hugarangri.

„Hann var slakur í þessum leik og ég get ekki skilið hvers vegna hann fór ekki í tæklinguna við Son af fullum krafti. Það er greipt í huga mér og ég hef hugsað um fátt annað í allt kvöld," segir Neville um spilamennsku Gylfa sem var tekinn af velli fyrir Bernard eftir tæplega klukkutíma leik.

Totttenham Hotspur komst upp í áttunda sæti deildarinnar með sín 48 stig með sigrinum í gær og á enn fína möguleika á að komast í Evrópudeildina á næstu leiktíð. Vonir Everton um sæti í Evrópudeildinni fjarlægðust aftur á móti með þessu tapi en liðið hefur 44 stig í 11. sæti þegar fimm umferðir eru eftir af deildarkeppninni.