Netflix streymisveitan og PGA mótaröðin í golfi hafa náð samkomulagi um að gerðir verði heimildarþættir um PGA risamót í golfi þar sem að áhorfendur fá að skyggnast á bak við tjöldin hjá færustu kylfingum heims.

Framleiðsluteymi Netflix mun fylgja allt að 22 kylfingum yfir árið 2022, áhorfendur munu því fá að sjá íþróttina með nýjum augum en teymið sem er á bak við þættina er það sama og sér um þættina Drive to survive, þar sem áhorfendur fá að skyggnast á bak við tjöldin í Formúlu 1.

Drive to survive, hafa notið mikilla vinsælda og gert það að verkum að Formúla 1 hefur rokið upp í vinsældum.

,,Þetta samstarf við Netflix gerir okkur kleift að ná sambandi við nýjan áhorfendahóp. Þættirnir munu gefa áhorfendum tækifæri á að skyggnast á bak við tjöldin hjá okkar kylfingum, þeir fá að sjá hvernig er að vinna og tapa," sagði Rick Anderson, fjölmiðlafulltrúi PGA mótaraðarinnar.

Meðal þeirra kylfinga sem fylgst verður með í þáttunum má nefna Dustin Johnson, Brooks Koepka, Justin Thomas og Jordan Spieth.