Ástralska ruðningsliðið Manly Sea Eagles tapaði síðasta leik sínum gegn Sydney Roosters, eftir að sjö leikmenn liðsins neituðu að spila leikinn þar sem liðið klæddist regnbogalitunum til að sýna hinsegin fólki samstöðu. Leikmennirir eru þó opnir fyrir því að klæðast búningnum í framtíðinni, að sögn eiganda félagsins.

Leikmenn höfðu ekki verið látnir vita af breytingum á búningnum fyrr en hann var kynntur til leiks. Þessir sjö leikmenn sem um ræðir neita að klæðast honum af trúarlegum ástæðum.

Eigandi félagsins, Scott Penn, telur að hægt verði að fá leikmennina til að klæðast treyju til stuðnings við baráttu hinsegin fólks, ef þeir sem stjórna myndu ráðfæra sig við þá.

„Ég held að þeir hafi að einhverju leyti verið pirraðir þar sem við ráðfærðum okkur ekki við þá, við virðum það,“ segir Penn.

Hann var spurður út í það hvort útilokað væri að þessir leikmenn myndu klæðast slíkum búningi í framtíðinni. „Nei. Hjá Manly snýst allt um að bjóða alla velkomna. Við munum halda svona áfram. Þeir eru sammála því að við þurfum að vinna saman,“ segir Scott Penn.